Annaðhvort/Eða – Formáli

Árið 1843 var magnum opus Kierkegaards, Annaðhvort/Eða (d. Enten/Eller), gefið út í Kaupmannahöfn. Verkið er feykimikið um sig, yfir 800 blaðsíður að lengd og skiptist í tvo bindi. Í nokkurn tíma hefur blundað í mér að þýða verkið, en enn sem komið er eru Uggur og ótti og Endurtekningin einu útgefnu íslensku þýðingarnar á verkum Kierkegaards. Ég hef nýlokið við að þýða formála verksins, sem skrifaður er undir dulnefninu Victor Eremita (sigurreifur einsetumaður). Það er vandasamt að þýða texta Kierkegaards, enda er textinn sjálfur á frummálinu oft fjarri því að vera einfaldur eða skiljanlegur. Þegar ég lít á enska þýðingu Howards og Ednu Hong frá 1987, til samanburðar, kemur bersýnilega í ljós hve snúinn textinn er. Enska þýðingin er s.s. síst auðmeltari en danski frumtextinn. Því velti ég fyrir mér hlutverki þýðanda, á hann að gera textann skiljanlegri og snúa honum yfir á einfaldara form, eða halda í stíl höfundar? Eflaust er besta lausnin að feta einhverskonar milliveg. 

Ég hef ákveðið að birta brot og brot úr þýðingu minni hér, það heldur mér við efnið, enda er þetta langhlaup. Formálinn birtist hér í heild sinni, en þar útskýrir Victor Eremita hvernig hann varð „eigandi að þeim ritgerðum, sem [hann] er […] þess heiðurs aðnjótandi að leggja fram fyrir hinn almenna lesenda.” Ég set dönskuna í sviga þegar ég er óviss, en lengri tilvitnanir má finna í neðanmáli. 

Góðir félagar lásu textann yfir og gáfu góð ráð, en því fer fjarri að þessi þýðing sé endanleg. Þetta er allavega einhverskonar byrjun. 

Formáli

Þér kann að hafa komið til hugar, kæri lesandi, að efast lítilega um sannleika þeirrar þekktu heimspekikenningar, að hið ytra sé hið innra og innra sé hið ytra. Þú hefur kannski sjálfur átt leyndarmál sem var, í sinni gleði eða sársauka, þér of kært til þess að þú gætir deilt því með öðrum. Kannski hefur lífið komið þér í kynni við manneskjur sem þig grunar að svo sé komið fyrir, án þess þú hafir, hvorki með krafti þínum né klækjabrögðum, verið fær um að varpa ljósi á hið leyndardómsfulla.

 Ef til vill á hvorugt tilvikið við um þig og þitt líf, en þó ertu ekki ókunnugur þeim efa sem hefur liðið framhjá huga þínum endrum og eins, líkt og kviklynd vera (d. en flygtig skikkelse). Þess konar efi kemur og fer og enginn veit hvaðan hann kemur eða hvert hann fer. Ég hef sjálfur alltaf verið hálfgerður villutrúarmaður hvað þennan heimspekilega hlut varðar, og vandi mig því snemma á að sinna allri eftirgrennslan og rannsóknum eins og vel og kostur er. Ég hef leitað ráða meðal höfunda sem deila þessari skoðun með mér, í stuttu máli hef gert allt sem í mínu valdi stendur til þess að bæta upp fyrir það sem heimspekileg verk hafa látið liggja á milli hluta.

 Með tímanum fór heyrnin að vera mér það skilningarvit sem ég hélt mest upp á, því rétt eins og röddin er opinberun hinnar ytri ósambærilegu einlægni (d. Inderlighed), er eyrað það verkfæri sem skilur þessa einlægni og heyrnin skilingarvitið sem hún tilheyrir. Í hvert skipti sem ég rakst á mótsagnir í því sem ég sá og heyrði, ágerðist efi minn og ástríða mín fyrir eftirgrennslan jókst. Rimlar skilja skriftaföðurinn frá þeim sem hann hlustar á; hann sér hann ekki, hann aðeins hlustar. Því meira sem hann hlustar, býr hann til mynd af hinu ytra sem passar við það sem hann hlustar á, og þannig finnur hann enga mótsögn. Því er hinsvegar öfugt farið þegar maður bæði (d. eengang) sér og heyrir, en sér rimla milli sín og þess sem talar.

 Tilraunir mínar til þess að komast að niðurstöðum um athuganir mínar hafa verið ansi fjölbreyttar. Heppnin hefur stundum verið með mér, stundum ekki, og til þess að hafa einhvern ávinning á þessum slóðum verður maður að hafa heppni. Þrátt fyrir það hef ég aldrei misst löngunina til þess að halda athugunum mínum áfram. Hafi ég einhvern tímann verið nálægt því að iðrast staðfestu minnar, hefur dugnaður minn einnig verið verðlaunaður úr óvæntri átt. Það var einmitt slík óvænt lukka, sem á hinn furðulegasta máta gerði mig eiganda að þeim ritgerðum, sem ég er hér þess heiðurs aðnjótandi að leggja fram fyrir hinn almenna lesenda.

 Í þessum ritgerðum fékk ég leyfi til að kíkja í inn líf tveggja einstaklinga (d. Menneskers), sem styrkti efa minn um að hið ytra sé ekki hið innra. Það á sérstaklega við í tilfelli annars þeirra. Ytra byrði hans (d. hans udvortes) var í fullkominni mótsögn við hans innra byrði. Upp að ákveðnu marki á það einnig við um hinn, að því leyti sem hann hefur hulið heilmikið innra byrði undir lítilfjörlegu ytra byrði.

 Svo öllu sé nú haldið til haga er fyrir bestu að ég byrji að segja frá því hvernig ég eignaðist þessar ritgerðir. Nú hafa liðið um það bil sjö ár síðan ég tók eftir skrifborði nokkru hjá heildsala (d. Merchandiser) hér í borg. Um leið og ég leit það augum vakti það athygli mína. Það var engin nýsmíði, nokkuð mikið notað, en engu að síður fangaði það mig. Mér er ómögulegt að útskýra orsök þessara áhrifa, en flestir hafa þó reynt eitthvað þessu líkt í sínu lífi. Á minni daglegu göngu gekk ég framhjá heildsalanum og skrifborðinu hans og aldrei lét ég nokkurn dag hjá líða án þess að gjóa augum á það. Smám saman fór skrifborðið að öðlast sögu fyrir mér og mér fannst ég knúinn til að skoða það. Á endanum var ég hættur að hugsa um þær óvenjulegu krókaleiðir sem ég gerði á för minni vegna þess. Eftir að hafa horft á það vaknaði sú löngun innra með mér að vilja eignast það. Ég vissi vel að þetta var undarleg löngun, þar sem ég hafði enga þörf fyrir þessa mublu; og það væri bruðl af mér kaupa hana. En löngunin er samt sem áður mjög margbrotin, eins og þekkt er. Ég gerði mér upp erindi til þess að fara inn til fara inn til heildsalans og spurði um aðra hluti, en í þann mun sem ég ætlaði að fara út lagði ég flóttalega fram mjög lágt tilboð í skrifborðið. Ég taldi að heildsalinn myndi mögulega slá til. Það hefði þá verið tilviljun sem hefði ratað á hendur mínar. Það var svo sannarlega ekki peninganna vegna sem ég bar mig að með þessum hætti, heldur samvisku minnar vegna. Þetta mistókst, heildsalinn var einstaklega fastur fyrir. Á hverjum degi, um langt skeið (d. en Tidlang), gekk ég framhjá og horfði hrifningaraugum á skrifborðið. Þú verður að ákveða þig, hugsaði ég. Ef það verður selt, þá er það um seinan; jafnvel þótt þér takist að hafa upp á því aftur, þá verða áhrifin aldrei þau sömu. Hjartað barðist um í brjósti mér þegar ég gekk inn til heildsalans. Borðið keypti ég og borgaði. Þetta verður í síðasta skipti, hugsaði ég, sem þú verður svona eyðslusamur. Já, það er nefnilega lán að þú hafir keypt það, því alltaf þegar þú horfir á það skaltu hugsa um hvurslags eyðslukló þú varst. Með skrifborðinu skal hefjast nýr kafli í þínu lífi. Ó, löngunin er vel máli farin, og góðar fyrirætlanir eru aldrei langt undan.

 Skrifborðið var sett upp í herberginu mínu og rétt eins og á fyrstu stigum hrifningar minnar er ég naut þess að horfa á það frá götunni, gat ég nú gengið framhjá því hér heima. Smám saman fór ég að þekkja hina fjölmörgu eiginleika þess, skúffur og hólf, og að öllu leyti var ég ánægður með skrifborðið. En þannig hélt það ekki áfram. Sumarið 1836 gerðu skyldur mínar mér kleyft (d. tillod mine Forretninger) að fara í stutta ferð um landið í átta daga. Ég hafði bókað ökuþór klukkan fimm. Þau föt sem ég þurfti að taka með mér var pakkað niður kvöldið áður; allt var í röð og reglu. Ég var þegar vaknaður klukkan fjögur, en ásýnd hinna fallegu sveita (d. Skjønne Egne) sem ég myndi heimsækja hafði svo ölvandi (d. Berusende) áhrif á mig að ég féll aftur í svefn eða í draum. Þjónustusveinninn minn vildi líklega að ég fengi allan þann svefn sem sem ég þyrfti, því hann kallaði ekki á mig fyrr en klukkan hálf sjö. Ökuþórinn flautaði þá þegar, og þrátt fyrir að ég sé annars tregur til þess að hlýða skipunum annarra, þá hef ég alltaf gert undantekningu í tilfelli ökuþórs og hans ljóðrænu mótífa (d. Poetiske motiver). Ég klæddi mig í flýti og var kominn við dyrnar þegar ég hugsaði: hefurðu næga peninga meðferðis í vasabókinni þinni? Það var ekki mikið. Ég opnaði skrifborðið til þess að taka út peningaskúffuna og taka það sem til var. En skúffan haggaðist ekki. Hver tilraun var árangurslaus. Þetta var eins hrapallegt og hugsast gat. Einmitt á því augnabliki sem lokkandi tónar ökuþórsins ómuðu í eyra mínu, þurfti ég að mæta slíkum erfiðleikum. Blóðið steig mér til höfuðs, ég var bálvondur. Eins og Xerxes húðstrýkti hafið (d. Lod Havet pidske), ákvað ég að hefna mín grimmilega. Handöxi var sótt. Með henni gaf ég skrifborðinu þungt og mikið högg (d. Et Gru vækkende Hug). Hvort ég hafi í reiði minni slegið feilhögg, eða hvort skúffan hafi verið jafn þrjósk og ég, þá voru afleiðingarnar ekki þær sem ég hafði búist við. Skúffan var læst og skúffan hélt áfram að vera læst. Aftur á móti gerðist svolítið annað. Hvort högg mitt hafi hitt nákvæmlega á þennan stað, eða hvort titringurinn í skrifborðinu öllu hafi verið ástæðan, veit ég ekki, en það veit ég að leynilegar dyr opnuðust, sem ég hafði aldrei áður tekið eftir. Þessar dyr huldu hólf sem ég hafði eðililega aldrei áður séð. Hér fann ég, mér til mikillar undrunar, ógrynni af pappírum, þær ritgerðir sem þessi útgáfa samanstendur af. Ákvörðun mín var óbreytt. Á fyrsta pósthúsi (d. Station) skyldi ég taka lán. Í miklum flýti var mahóníkassi, sem venjulega geymdi skammbyssupar, tæmdur. Gleðin hafði sigrað og aukist óvænt; í hjarta mínu bað ég skrifborðið afsökunar á þessari óblíðu meðferð, á meðan hugur minn fann hvernig efi minn jókst, um að hið ytra sé einimtt ekki hið innra, og setningin sem tilraun mín tók mið af staðfest (d. min Erfaringssætning bekræftet); að það þurfi heppni til að gera slíkar uppgötvanir.

 Laust fyrir hádegi kom ég til Hillerød, kom röð og reglu á fjármálin og leyfði þessari dýrlegu sveit að hafa rækileg áhrif á mig. Strax næsta morgun hófust ferðir mínar, sem nú tóku á sig allt annað yfirbragð en ég hafði upphaflega hugsað þeim. Þjónustusveinninn minn fylgdi mér með mahóníkassann. Ég leitaði að rómantískum stað í skógum, þar sem ég væri nokkurn veginn öruggur um að vera ekki truflaður, og tók þar fram skjölin. Gestgjafi minn tók eftir þessum tíðu gönguferðum með mahóníkassann og velti því fyrir sér hvort ég væri kannski að æfa skambyssufimi mína. Þessar vangaveltur hans gerðu það að verkum að ég varð honum þakklátur og leyfði honum að trúa þessu áfram.

 Ég sá með því að líta snögglega á hinar fundnu ritgerðir, að þær mynduðu tvo hluta og voru greinilega frábrugðnar hvað útlit snerti (d. I det ydre). Annar hlutinn var skrifaður á „en Art Post-Velin”, í kvartbroti (d. I quart), með sæmilega breiðri spássíu. Hinn var skrifaður á heila örk af býkúpupappír með strikuðum dálkum, líkt og lagaskjöl og annað þess háttar er skrifað á. Handskriftin var skýr, nokkuð langdregin, frábreytt og jöfn og virtist tilheyra kaupsýslumanni. Einnig virtist innihaldið strax vera ólíkt. Annar hlutinn innihélt nokkurn fjölda af fagurfræðilegum ritgerðum, en hinn hlutinn samanstóð af tveimur löngum bollalengingum (d. Undersøgelser) og einni minni, öllum af siðferðislegum toga, að því er virtist, og í bréfaformi. Við nánari athugun var þessi munur algerlega staðfestur. Síðari hlutinn eru einmitt bréf sem eru skrifuð til höfundar fyrri hlutans.

 Til að gera grein fyrir þessum tveimur höfundum er þörf á nánari útlistingu. Ég hef farið í gegnum ritgerðirnar af mikilli nákvæmi og ekkert fundið, eða svo gott sem ekkert. Hvað fyrri höfundinn varðar, Fagurkerann, eru engar upplýsingar að finna. Hvað hinn varðar, bréfaskrifarann, kemst maður að því að hann hét Vilhjálmur og var dómari við dómstól, en við hvaða dómstól kemur ekki fram. Ef ég vildi halda mig nákvæmlega við hið sögulega og kalla hann Vilhjálm, skortir mig samsvarandi heiti á fyrri höfundinn og hefði orðið að gefa honum handahófskennt nafn. Ég hef því frekar kosið að kalla fyrri höfundinn A og þann síðari B.

 Utan við löngu ritgerðirnar fundust þeirra á meðal pappírstjáslur (d. En Mængde Lapper) sem á voru skrifuð spakmæli, ljóðrænar kviður, vangaveltur. Handskriftin sýndi einimtt að þær tilheyrðu A, innihaldið staðfesti það.

 Ég leitaðist nú eftir því að raða ritgerðunum upp á sem bestan máta. Það var tiltölulega auðvelt í tilviki B. Annað bréfið gerir ráð fyrir hinu. Maður finnur í seinna bréfinu tilvitnun í hið fyrra. Þriðja bréfið gerir ráð fyrir hinum fyrri tveimur.

 Að raða ritgerðum A var ekki eins auðvelt. Uppröðunin var því hendingu háð, þ.e. ég lét þau vera í þeirri röð sem ég fann þau, án þess auðvitað að geta skorið úr um hvort þessi uppröðun hafi tímanlegt gildi eða hugmyndafræðilega þýðingu (d. …om denne Orden har chronologisk Værdi eller ideel Betydning). Pappírstjáslurnar lágu lausar í hólfinu og því þurfti ég að finna þeim stað. Ég kom þeim fyrir í upphafi, því ég taldi að best væri að líta á þær sem undanfara þess sem hinar lengri ritgerðir útlista á samfelldari máta. Ég hef kallað þær Διαψαλματα og bætt við nokkurskonar einkunnarorðum: ad se ipsum (til sjálfs sín). Þetta heiti og þessi einkunnarorð koma að einhverju leyti frá mér, og þó ekki. Þau eru frá mér komin að því leyti að þau eiga við allt safnið (d. samling); en aftur á móti tilheyra þau A sjálfum, því á einu pappírstjaslinu var orðið Διαψαλμα skrifað, og á tvö þeirra orðin: ad se ipsum. Einnig fannst lítið franskt ljóð skrifað hjá einu einu þessarra spakmæla, sem ég hef látið prenta innan á titilsíðuna, rétt eins og A hefur sjálfur oft gert. Þar sem meirihluti þessarra spakmæla hafa ljóðrænt yfirbragð taldi ég það heppilegast að nota orðið Διαψαλμα sem aðaltitil. Skyldi lesendanum finnast það val óheppilegt, verð ég að viðurkenna (d. da skylder jeg Sandheden at tilstaae) að þetta er mitt uppátæki, og að orðið var vissulega notað eftir smekk af A sjálfum um það spakmæli sem það stóð yfir. Hvað varðar uppröðun spakmælanna hef ég látið tilviljun ráða. Það að einstaka ummæli séu oft í mótsögn við önnur, fannst mér aldeilis í lagi; því það tilheyrir einmitt stemningunni. Að raða þeim upp þannig að mótsagnirnar væru minna áberandi fannst mér ekki ómaksins vert. Ég fylgdi tilviljuninni, og það er einnig tilviljun sem dró athygli mína að því að fyrstu og síðustu spakmælin kallast á, þar sem annað fæst við (d. gjennemføler) hið sársaukafulla sem felst í því að vera skáld, en hitt fjallar um þá ánægju að hafa alltaf hláturinn með sér í liði.[1]

 Hvað fagurfræðilegar ritgerðir A varðar, hef ég ekkert til að leggja áherslu á. Þær voru allar tilbúnar til prentunar, og ef þær innihalda einhverskonar vandkvæði, þá verð ég á láta þau tala fyrir sig sjálf. Hvað mig varðar verð ég að benda á, að ég hef bætt við þýðingum við grískar tilvitnanir sem finnast hér og þar, sem ég hef fengið úr einum af betri þýsku þýðingunum.

 Síðasta ritgerð A er frásögn sem ber heitið „Dagbók flagarans”. Hér bætast við nýjir örðugleikar, þar sem A kveðst ekki vera höfundur, heldur aðeins útgefandi. Þetta er gömul bókmenntafræðileg brella, sem ég myndi venjulega ekki hafa neitt á móti, ef hún gerði ekki stöðu mína svona flókna, þar sem einn höfundur liggur inni í hinum líkt og askja í kínversku öskjuspili. Þetta er ekki staðurinn til þess að útskýra það sem styrkir mig í sannfæringu minni; ég vil aðeins benda á að sá andi sem svífur yfir vötnum í formála A, kemur á einhvern hátt upp um skáldið.[2]

 Það er í raun eins og A hafi sjálfur orðið hræddur við sinn eigin skáldskap, sem líkt og órólegur draumur hélt áfram að hræða hann, einnig á meðan sögunni stóð. Ef þetta var raunverulegur viðburður, sem hann var meðvitaður um, þá finnst mér skrítið að formálinn beri engin merki um ánægju A yfir því að sjá þá hugmynd sem hann hafði svo oft gripið í (rámað í, d. Foresvævet) verða að veruleika. Það er ýjað að hugmyndinni um flagarann í ritgerðinni um hið Tafarlaust-erótíska, rétt eins og í Skuggamyndunum, – einmitt að hliðstæðan við Don Juan hljóti að vera hugsandi (d. reflektiv) flagari, sem fellur undir flokk hins áhugaverða[3], þar sem spurningin snýst ekki um hversu margar hann flekar, heldur hvernig. Merki um slíka ánægju finn ég ekki í formálanum, en hinsvegar, eins og áður hefur komið fram, ótta og ákveðinn hrylling, sem á orsök sína í ljóðræðnu sambandi hans við þessa hugmynd. Og það kemur mér ekki á óvart að A skyldi bregðast svona við, því einnig ég, sem hef alls ekkert með þessa frásögu að gera, er tvisvar sinnum fjarlægður frá hinum upprunalega höfundi[4], einnig ég er stundum undarlega órólegur þegar ég sýsla með þessar ritgerðir í ró næturinnar. Mér virtist sem flagarinn sjálfur færi um gólf mitt eins og skuggi, líkt og hann liti auga á ritgerðirnar, festi sitt djöfullega augnaráð á mér og segði: „Nú jæja, Þér viljið gefa út pappírana mína. Það er ansi gáleysislegt af yður, þér vekið þar upp angist í elsku stúlkubörnunum. En þó, það liggur í augum uppi (d. det forstaaers sig) að launin eru þau að ég og mínir líkir eru gerðir meinlausir. Þar gerið þér mistök, því ég breyti aðferðinni og þá eru skilmálar mínir mér í hag. Þvílíkur straumur af smástúlkum sem munu hlaupa í fang mannsins, þegar þær heyra þetta tælandi nafn: Flagari! Gefðu mér hálft ár, og ég mun búa til sögu sem mun verða áhugaverðari en allt sem ég hingað til upplifað. Ég hugsa um unga, kraftmikla, hugvitsama stúlku sem fær þá óvenjulegu hugmynd að vilja nota kyn sitt til að hefna sín á mér.[5] Hún heldur að hún geti þvingað mig og látið mig bragða á sársauka óhamingjusamrar ástar. Sjáðu til, þetta er stúlka fyrir mig. Ef hún hugsar sjálf ekki nægilega djúpt um þetta, þá mun ég koma henni til hjálpar. Ég skal snúa mér eins og áll Molbúans (d. Molboernes Aal). Og þegar ég hef náð henni á þann stað sem ég vil, þá er hún mín.”

 Ég hef kannski nú þegar misnotað aðstöðu mína sem útgefandi með því að íþyngja lesendum með skoðunum mínum. Tilefnið kemur mér til varnar; því það var hið tvísýna við kringumstæður mínar, að A kallaði sig útgefanda þessarar sögu en ekki höfund, sem ég leyfði mér að hrífast með.[6]

 Allt annað sem ég hef við þessa frásögn að bæta, get ég aðeins gert í umboði mínu sem útgefandi. Ég held nefnilega að í þessari frásögn sé að finna tímatilgreiningu (d. Tidsbestemmelse). Í dagbókinni finnst hér og þar dagsetning, en ártal vantar. Mér virðist því ómögulegt að komast lengra; en með því að virða fyrir mér dagsetningar betur tel ég mig hafa fundið vísbendingu. Það er sannlega rétt, að á hverju ári er 7. apríl, 3. júlí, 2. ágúst, o.s.frv. En það þýðir þó engan veginn að 7. apríl sé á hverju ári mánudagur. Ég hef reiknað þetta út og komist að því að þessi dagsetning tilheyrir árinu 1834. Hvort A hafi hugsað um þetta get ég ekki skorið úr um, og get varla trúað því; því ef svo hefði verið hefði hann ekki gert jafn miklar varúðarráðstafanir eins og hann gerir venjulega. Í dagbókinni stendur heldur ekki: mánudagurinn 7. apríl o.s.frv. Þar stendur aðeins: þann 7. apríl. Já, málsgreinin byrjar svona: Sem sé, á mánudag, – og þannig er athyglinni dreift, en með því að lesa í gegnum málsgreinina sem finnst undir þessari dagsetningu sér maður að þetta hlýtur að hafa verið mánudagur. Þessi frásögn gefur mér þannig ákveðinn tímaramma; en aftur á móti hefur hver einasta tilraun sem ég hef hingað til gert með þessu móti, til að ákvarða tímaramma þeirra ritgerða sem eftir standa, mistekist. Ég hefði allt eins getað úthlutað þeim stað númer þrjú, en ég hef, líkt og segir að ofan, frekar kosið að láta tilviljun ráða og allt vera í þeirri röð sem ég fann það.

 Hvað viðkemur ritgerðum B, raðast þær upp af sjálfum sér bæði auðveldlega og eðlilega. Á þeim hef ég hins vegar ákveðið að gera eina breytingu, ég hef leyft mér að nefna þær, því bréfaformið hefur hindrað höfundinn í að gefa þessum rannsóknum heiti. Ef lesendanum skyldi því, eftir að hafa gert sig kunnugann innihaldinu, telja heitin ekki heppilega valin, skal ég ávalt vera reiðubúinn að þola þann sársauka sem felst í því að hafa gert eitthvað rangt, þegar maður hefur óskað sér að gera eitthvað gott.

 Á einum og einum stað finnst athugasemd á spássíunni, sem ég hef breytt í neðanmálsgreinar, svo ég komi ekki til með að grípa truflandi inn í sjálfan textann.

 Hvað viðkemur handriti B hef ég ekki leyft mér að gera nokkura breytingu, en hef þó samviskulega litið á það sem skjal (d. aktstykke). Kannski hefði ég getað eytt út hinni og þessari óvarkárnisvillu (d. skjødesløshed), sem eru skiljanlegar þegar maður leiðir hugann að því að hann er aðeins bréfaskrifari. Ég vildi það ekki, af því ég óttaðist að ganga of langt. Þegar B vill meina að af 100 ungum manneskjum sem leiðist af braut sé 99 bjargað af konum en einni af guðdómlegri náð, sér maður greinilega að hann var ekki góður í reikningi, því hann gefur ekkert rými þeim sem raunverulega leiðast af braut. Ég hefði auðveldlega getað breytt tölunum, en ég tel að það felist eitthvað mun fallegra í misreikningum B. Á öðrum stað nefnir B grískan vitring að nafni Myson og segir frá honum, að hann njóti þeirrar fágætu lukku að vera talinn ein af vitringunum sjö, þegar tala þeirra telur fjórtán. Ég var um stund óviss um hvaðan B fékk þessa speki, ásamt því hvaða gríski höfundur þetta gæti verið sem hann vitnaði í. Mig grunaði samstundis að þetta væri Díógenes Laertíus, og eftir eftirgrennslan í Jøcher og Morèri fann ég einmitt tilvísanir í hann. Frásögn (d. efterretning) B þarfnast ef til vill leiðréttinga, því rétt eins og hann segir þá gengur það ekki upp, að það sé einhver óvissa meðal hinna fornu í ákvörðun sinni um hverjir hinir sjö vitringar voru. Þó hef ég ekki fundið það ómaksins vert; mér virtist sem að athugasemd hans, þótt hún hafi ekki verið mjög söguleg, hefði annað gildi.

 Ég er kominn jafnt langt núna og ég var fyrir fimm árum síðan; ég hafði raðað ritgerðunum upp eins og þær eru núna, hafði ákveðið að gefa þær út á prenti, en taldi þó að það væri best að bíða um stund. Ég taldi fimm ár vera viðeigandi tíma. Nú hafa þessi fimm ár liðið og ég byrja þar sem ég hætti. Ég veit vel að ég þarf ekki að sannfæra lesendur mína um að ég hafi ekki gert tilraun til að komast á snoðir um höfundana. Heildsalinn skráði það ekki hjá sér (d. holdt ingen bog), sem líkt og vitað er, er sjaldgæft meðal heildsala. Hann vissi ekki af hverjum hann hafði keypt þessa mublu. Hann taldi sig hafa keypt hana á blönduðu uppboði. Ég mun ekki reyna (d. fordriste) að segja lesendanum frá fjölbreytileika þeirra árangslausu tilrauna, sem hafa kostað mig mikinn tíma, og enn síður vegna þess að endurminningin um þær veitir mér enga ánægju. Ég get hins vegar uppfrætt lesandann um niðurstöðurnar í stuttu máli. Þær voru í raun ekki neinar.

 Í þann mund sem ég vildi koma ákvörðun minni um að gefa þessar ritgerðir á út prenti í framkvæmd, vöknuðu með mér efasemdir. Kannski leyfir lesandinn mér að tala nokkuð opinskátt. Mér datt í hug hvort ég hafi ekki gert mig sekan um flasmælgi gagnvart hinum óþekktu höfundum. En því meir sem ég varð nánari ritgerðunum, þeim mun meir hvarf þessi hugsun. Ritgerðirnar voru þess eðlis, að þrátt fyrir allar mínar nákvæmu athuganir, veittu þær engar upplýsingar, og þaðan af síður mun lesandi finna þær, því ég þori vel að bera mig saman með lesenda, ekki hvað varðar smekk og samúð og innsæi, heldur hvað varðar iðni og eljusemi. Þannig ef gert er ráð fyrir því að hinir óþekktu höfundar séu ennþá til, að þeir lifi hér í borginni, og komi til með gera óvænta uppgötvun á sínum eigin ritgerðum, þá mun útgáfan engu að síður, haldi þeir sjálfir þögn sinni, ekki hafa neinar afleiðingar. Því um þessar ritgerðir gildir í strangasta skilningi og sagt er um allt prentað efni – þær þegja.

 Ég hafði aðrar efasemdir sem voru í sjálfu sér ekki eins mikilvægar og nokkuð auðvelt að komast yfir þær, og hafa þær nú verið yfirstignar með auðveldari hætti en ég hafði búist við. Mér datt það nefnilega í hug, að þessar ritgerðir gætu orðið að fjárhagslegu tilefni (d. pengegjenstand). Mér fannst það vel við hæfi að þiggja smávegis heiðurslaun fyrir ómak mitt sem útgefanda; en höfundarlaun varð ég að telja allt of mikið. Rétt eins og réttsýnu skosku bændurnir í „Hvítu dömunni” (d. Den hvide Dame) ákveða að kaupa eignina og rækta hana og því næst gefa hana greifunum af Evenel, ef þeir skyldu einhverntímann snúa til baka, þannig ákvað ég að ráðstafa heiðurslaununum fyrir hönd hinna óþekktu höfunda. Ef þeir skyldu einhvern tímann stíga fram, þá gæti ég gefið þeim alla upphæðina með ávöxtum og ávöxtum af ávöxtunum. Ef lesandinn hefur ekki þegar ákveðið, vegna alls míns klaufagangs að ég sé enginn höfundur, ekki heldur bókmenntamaður (d. literatus) sem hefur atvinnu af því að vera útgefandi, þá mun einfeldni þessarar röksemdafærslu (d. raisonnment) taka af allan vafa. Þessum efasemdum var því vísað á bug auðveldlega; því höfundalaun í Danmörku eru enginn herragarður, og hinir óþekktu höfundar þyrftu að vera lengi í burtu þangað til að heiðurslaun þeirra með ávöxtum og ávöxtum ávaxtanna gætu orðið að fjárhagslegum efnum.

 Það eina sem nú var eftir var að gefa þessum ritgerðum heiti. Ég gæti kallað þær eftirlátnar (d. Efterladte) ritgerðir, fundnar ritgerðir, týndar ritgerðir o.s.frv. Það er hægt að finna allskonar útfærslur, en enginn þessara titla uppfyllti kröfur mínar. Ég hef því veitt mér frelsi í að ákveða heitið, blekkingu, sem ég mun leitast eftir að gera skil á. Í stöðugri vinnu minni með þessar ritgerðir fékk ég þá uppljómun, að þær gætu fengið nýtt sjónarhorn, sé litið svo á að þær tilheyri einni manneskju. Ég veit vel um allt það sem mælir gegn þessu sjónarhorni, að það sé ósögulegt, að það sé ósatt, að það sé fráleitt, að ein manneskja geti verið höfundur beggja hlutanna, þó að lesandinn gæti látið freistast af orðaleiknum; hafi maður sagt A, hafi maður einnig sagt B. Engu að síður hef ég ekki getað gefið þessa hugmynd upp á bátinn. Það var þó ein manneskja sem hafði upplifað báðar stefnurnar (d. Bevægelser), eða hugleitt báðar stefnurnar. Ritgerðir A fjalla nefnilega um fjöldan allan af tilhlaupum í átt til fagurfræðilegs lífsviðhorfs. Samstæðu fagurfræðilegu lífsviðhorfi er varla hægt að gera grein fyrir. Ritgerðir B fjalla um siðferðislegt lífsviðhorf. Um leið og ég leyfði sál minni að verða fyrir áhrifum af þessari hugmynd, varð mér það ljóst, að ég gat látið hana leiða mig áfram í að ákveða heitið. Heitið, sem ég hef valið, dregur þetta einmitt fram. Hverju lesandinn kann að glata með þessu heiti, getur ekki verið mikið; því í lestrinum sjálfum gæti hann gleymt heitinu. Þegar hann hefur lesið bókina, þá getur hann kannski hugsað um heitið. Það mun frelsa hann frá lokaspurningu, um hvort A hafi raunverulega verið sannfærður og hafi iðrast, um hvort B hafi sigrað, eða hvort þetta hafi endað með því að B hafi tekið upp skoðun A. Að þessu leyti er enga niðurstöðu að fá í þessar ritgerðir. Finnist einhverjum þetta sér ekki samboðið, þá getur hann heldur ekki verið í rétti til að segja, að þetta séu mistök, því þá ætti að kalla það ógæfu. Hvað mig varðar lít ég á þetta sem hamingjuverk. Maður rekst stundum á skáldsögur þar sem ákveðnar persónur flytja okkur andstæð lífsviðhorf. Þær enda gjarnan með því að önnur sannfærir hina. Í staðinn fyrir að lífsviðhorfið fái að tala fyrir sig sjálft, eru þær sögulegu niðurstöður færðar lesendanum að önnur persónan verði sannfærð. Ég lít á það sem gæfu, að þessar ritgerðir færa okkur engar upplýsingar í þá áttina. Hvort A skrifaði sínar fagurfræðilegu ritgerðir eftir að hafa tekið við bréfum B, hvort sál hans eftir þann tíma hafi haldið áfram að ærslast í sínum villta óróleika eða hvort hún hafi róast niður, um það er ég ekki hæfur til að veita nokkrar einustu upplýsingar sem ritgerðirnar sjálfar innihalda ekki. Þær innihalda heldur ekki nokkrar vísbendingar um hvernig fór með B, hvort hann hafi haft kraft til að viðhalda sínu lífsviðhorfi eða ekki. Þegar bókin er lesin, þá gleymast A og B, aðeins lífsviðhorfin standa andspænis hvert öðru og vænta einskis uppgjörs ákveðinna persónuleika.

 Ég hef ekkert meira að athuga, en mér hefur dottið það í hug að hinir heiðruðu höfundar, ef þeir hefðu vitneskju um verkefni mitt, gætu mögulega óskað eftir því að fylgja ritgerðum sínum eftir með orði til lesendans. Ég mun því bæta við nokkrum orðum með leiðandi (d. paaholden) penna. A myndi ekki hafa neitt á móti útgáfu þessara ritgerða og líklega myndi hann hrópa til lesendans: „Les þá eða les þá ekki, þú munt iðrast hvoru tveggja.” Hvað B myndi sagt hafa er erfiðara að segja til um. Hann myndi kannski ávíta mig fyrir eitthvað annað, sér í lagi varðandi útgáfu á ritgerðum A; hann myndi láta mig verða áskynja um að hann hefði átt engan þátt í því, og að hann gæti þvegið hendur sínar af því. Eftir að hafa gert það, myndi hann kannski beina erindi sínu að bókinni með þessum orðum: „Farðu þá út í heiminn, forðastu athygli gagnrýnenda ef mögulegt er, heimsæktu einstaka lesenda á vinsamlegum tíma, og skyldir þú rekast á kvenkyns lesenda, þá myndi ég segja: Minn elskaði lesandi, þú munt finna í þessar bók eitthvað sem þú kannski vissir ekki. Annað sem þú hefðir gagn af því að vita. Lestu þá eitthvað, þannig að þegar þú hafir lesið það getir þú verið eins og sá sem ekki hafi lesið það, lestu hitt þannig að þú sem hefur lesið getir verið eins og sá sem hafi ekki gleymt því sem hafi verið lesið. Sem útgefandi mun ég aðeins bæta við þeirri ósk, að bókin meigi mæta lesendanum á vinalegum tíma, og að hinum alúðlega lesanda takist að fylgja velmeinandi ráðum B.

 Nóvember 1842,

 Útgefandi.

[1] At den første og den sidste Aphorisme paa en Maade svare til hinanden, idet den ene ligesom gjennemføler det Smertelige, der ligger i at være Digter, den anden nyder den Tilfredsstillelse, der ligger i, altid at have Latteren paa sin Side.

[2] Til nærmere at udvikle, hvad der bestyrker mig i min Mening, er her ikke Stedet, kun vil jeg bemærke, at den Stemning, der hersker i As Fortale, paa en Maade røber Digteren.

[3] …der ligger I det intresantes Kategori.

[4]ja selv ved to Rækker er fjernet fra den oprindelige Forfatter.

[5] …ville hævne kjönnet pa mig.

[6] Anledningen maa tale til min Undskyldning; thi det var i Anledning af det Mislige i min Stilling, foraarsaget ved, at A blot nævner sig som Udgiver af, ikke som Forfatter til denne Fortælling, at jeg lod mig henrive.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s