Karlar á niðurleið

Nýverið hóf sjónvarpsþátturinn Á uppleið göngu sína á Stöð 2, en þættinum er stýrt af sjónvarpsmanninum geðþekka Sindra Sindrasyni. Þetta eru lífsstílsþættir, en þar heimsækir Sindri fimm íslenskar konur, á aldrinum 27-31 árs, sem allar eru búsettar í Lundúnum. Fyrir utan það að vera ungar og búa í sömu borginni, eiga konurnar það allar sameiginlegt, að minnsta kosti að mati Sindra, að vera á uppleið lífinu og af þeirri staðreynd dregurinn þátturinn nafn sitt.

Þær vinna í fjárfestingabönkum, stjórna tískukeðjum, eru fatahönnuðir, og svo framvegis, og svo framvegis. Þær eru ungar, metnaðarfullar og svo sannarlega á uppleið. Framtíðin er þeirra og Lundúnir þeirra heimavöllur. Um sinn að minnsta kosti.

Ég hef ekki séð alla þættina, og ætti því kannski ekki að tjá mig um innihald þeirra, en þið fyrirgefið mér, ég er ekki með Stöð 2. Ég sá hinsvegar þáttinn um hina þrítugu Elísabetu sem býr ásamt manni og syni í einu af fínu hverfum borgarinnar og starfar hjá fjárfestingabankanum JP Morgan. Sindri fékk ekki að vita hvað Elísabet væri með í mánaðarlaun en náði því þó út úr henni að leikskólapláss fyrir soninn kostar litlar 300.000 krónur á mánuði. Forvitnir geta lagt saman tvo og tvo.

Þættirnir Á uppleið eru líklega ágætir til síns brúks, en þegar ég horfði á þáttinn um hina farsælu Elísabetu fór ég að velta fyrir mér mögulegri framhaldsþáttaröð, sem fjalla myndi um andstæðunar við Elísabetu og konurnar fimm. Þ.e., karla á niðurleið.

Það yrði átakanlegt að fylgjast með Sindra Sindrasyni taka hjartnæm en raunsæ viðtöl við fimm karlmenn á sama aldri, búsetta erlendis, sem allir ættu það sameiginlegt að vera á niðurleið. Hraðri niðurleið þess vegna.

Því eins mikið og við höfum gaman að því að sjá og fræðast um fólk sem gengur vel í lífinu, er það líka ríkt í okkur að vilja fylgjast með þeim sem gengur illa. Í okkur öllum er að finna einhverskonar voyerisma, kíkihneigð.

Mennirnir ættu það sameiginlegt hafa allir klúðrað málunum, misst af lestinni svo að segja. Dottið af vagninum. Sindri myndi kíkja heim til Bergs í Berlín, sem nýverið var rekinn og safnar nú flöskum til að láta enda ná saman. Til Magnúsar í Bergen, sem eiginkonan yfirgaf fyrir skömmu með börnin tvö og skildi eftir skuldum vafinn. Til Garðars, atvinnumanns í fótbolta sem glímir við erfið meiðsli, þunglyndi og áfengissýki, og fær ekki endurnýjun á samningi.

Allt í kringum okkur eru nefnilega karlar á niðurleið, rétt eins og konur á uppleið. Og öfugt. Ekki aðeins stjórnmálamenn sem draga sér opinbert fé eða fordómafullir íhaldsskunkar í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, heldur venjulegir menn sem engir þekkir.

En það er ekki þar með sagt að við viljum fylgjast með körlum á niðurleið til þess eins að hæðast að þeim. Það gæti kennt okkur ýmislegt um okkur sjálf að fá skyggnast inn í líf brotinna karlmanna á besta aldri.

Við erum nefnilega í sífellu að máta okkur við samferðarmenn okkar, og eflaust eru það ein mestu mistök sem við getum gert. Það getur vissulega haldið manni á tánum og gert það að verkum að við verðum ekki undir í lífsbaráttunni, en það gerir okkur ekki endilega hamingjusöm. Lífið er ekki svo einfalt og því fer fjarri að hlutirnir gangi alltaf upp. Í rauninni ganga þeir ekkert svo oft upp, þeir fara bara einhvernveginn. Viðmælendur Sindra í Á uppleið segja okkur að maður verði að meika það í þessum heimi, gera betur en næsti maður, að ekkert annað sé í boði.

Karlarnir í næstu þáttaröð Sindra myndu veita þessari lífsýn heilbrigt mótvægi og gefa okkur ákveðna innsýn í hversu ömurlegt það getur jú verið að búa í útlöndum, það sé ekki alltaf dans á rósum. Það myndi minna okkur á að það eru ekki allir að meika það og það sé kannski bara allt í lagi. Þannig sé bara lífið. Og áhorfandanum heima í stofu líði kannski aðeins betur með sjálfan sig, um leið og hann finndi fyrir samkennd með brotnum bróður, einamana og yfirgefnum einhversstaðar lengst úti í heimi.

Nú í versta falli gæti þetta allavega verið pínulítið fyndið.

– Pistillinn var upphaflega fluttur í ÞUKL-inu, á Hlaðvarpi Kjarnans. 02.10.2015 –

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s