Í gegnum bæinn í síðasta skipti

Pistillinn var upphaflega fluttur í ÞUKL-inu, á Hlaðvarpi Kjarnans. 28.04.2015 –

Árið 1993 lést danski rithöfundurinn Dan Turèll úr krabbameini, einungis 47 ára að aldri. Turell þótti litríkur karakter sem setti svip sinn á menningarlífið í Kaupmannahöfn. Hann lakkaði á sér neglurnar, hann reykti mikið af sígarettum, hann var bóhem eins og þeir gerast bestir. Sósíalisti, anarkisti og búddisti, allt á sama tíma.

Ef að Tómas Guðmundsson var Reykjavíkurskáld, var Dan Turèll Kaupmannahafnarskáld. Hann elskaði sinn heimabæ, og þótti gjarnan draga upp mynd af borginni í verkum sínum sem var langtum rómantískari en raunveruleikinn bar vitni um.

En þannig er eðli skáldskaparins og eitt af því sem dregur okkur að honum. Hann þarf ekki að birta okkur heiminn nákvæmlega eins og er, en segir engu að síður sannleikann. Sannleikann um hvernig heimurinn mætir okkur þegar við erum opin fyrir því að sjá fegurðina í hinu smáa, í hversdagsleikanum. Og öfugt auðvitað. Rétt eins og lífinu sjálfu.

Árið 1977 birti hann ljóðið Gennem byen en sidste gang, eða Í gegnum bæinn í síðasta skipti. Í ljóðinu lýsir Turell gönguferð sinni í gegnum Kaupmannahöfn, meðvitaður um að þetta yrði hans hinsta för um bæinn sem hann elskaði svo heitt.

Jafnvel þótt við höfum aldrei komið til Kaupmannahafnar, getum við tengt við þetta ljóð, við sem eigum okkur heimaland, heimabæ, eða sveit, sem enginn skilur af hverju við elskum nema við sjálf. Það sem Turèll elskaði við sinn heimabæ, Kaupmannahöfn, var einmitt einfaldleikinn. Lyktin af káli og kjötbollum og birtan inni á Hovedbanegården. Við lesturinn leitaði hugur minn heim í Borgarnes, til Sæmundar rútubílstjóra, Brákareyjar og smurolíukeimsins á dekkjaverkstæðinu hans Hölla.

Lyktarinnar af birkitrjánum í Skallagrímsgarði.

Því er oft haldið fram að fjarlægðin geri fjöllin blá. En það er ekki rétt, fjöllin eru ekki blá, þau eru og verða alltaf svört, kannski gráleit með mýrardrullu á vorin ef við erum heppin. En í skáldskapnum mega þau vel vera blá fyrir mér.

Ég settist niður með kaffibolla í gær og snaraði ljóði Turells yfir á íslensku. Ljóði, sem fær mig til að hugsa um alla þá staði sem ég elska. Þrátt fyrir að þeir séu meingallaðir.

Í gegnum bæinn í síðasta skipti

Áður en ég dey vil ég gjarnan arka í gegnum bæinn í síðasta skipti
það verður mín hinsta, hógværa ósk
ég mun ganga í gegnum bæinn minn
í gegnum Kaupmannahöfn
eins og ég hef gert svo oft áður
og ég mun vita að það verður í síðasta skipti
og ég mun velja leið mína vandlega
og ég mun ganga niður að Istegade eða Vesterbrogade
og ganga niður með öllum litlu, sólarlausu hliðargötunum og öllum lokuðu búðunum
og ég mun kíkja á allar gluggauppstillingarnar með gulnuðum gardínum og fitugum gaseldavélum
og ég mun finna lyktina af káli og kjötbollum og kartöflum í hverjum einasta stigagangi
og ég mun róta í bókakössunum og ekki kaupa neitt
og ekki af því þetta verður í síðasta skipti
heldur af því ég róta aldrei í bókakössum til að kaupa
heldur til að róta í þeim og hugsa um hve stutt og merkilegt lífið er

og ég mun sjá börnin leika sér í litlu ferköntuðu vindblásnu bakgörðunum
og ég mun heyra þau kallast á
og ég mun sjá mæðurnar halla sér út um eldhúsglugganna með sína þrýstnu barma
og kalla á þau þegar maturinn er tilbúinn
og út um gluggann munu þær hengja upp þvottasnúru með nærfötum fjölskyldunnar
og þau munu blakta í vindinum
og ég mun ganga í gegnum skáldahverfi Vesterbro í rökkrinu
ég mun ganga áfram meðfram Saxogade, Oehlenschlägergade Kingosgade
og ég mun fara inn eitt af öldurhúsunum
kannski Café Guldregn
og fá mér einn bitran drykk og ekkert annað
og svo held ég út og áfram

ég mun ganga sólanna úr skónum á síðasta göngutúr mínum í Kaupmannahöfn
ég mun kveðja bæinn minn
ég mun sjá alla verkamennina í Vesterbro koma heim í vinnugöllunum sínum
markaðir af striti dagsins og svita
með grænan Cecil í munninum og samanbrotið Ekstra-blað í rassvasanum

… og ég mun ganga áfram frá Vesterbro
ég mun ganga niður að aðallestarstöðinni
ég mun í gegnum hana í grárri birtu og hún verður eilítið þokukennd
og eins og alltaf mun hún mæta mér eins og gömul tárvot bíómynd
og hún mun stinga í hjartað eins og hún gerir alltaf
og vanalegu fyllibytturnar munu sitja þar og bíða eftir engu
ungu puttaferðalangarnir munu standa þar með bakpokana sína og mjólkurfernurnar
uppteknar og mæddar manneskjur munu bíða eftir tengilestum
fjölskyldur munu koma með ferðatöskur og barnavagna
til að fara í helgarferð út á land
og ég mun draga mig til hlés út í horni og vera gagntekinn
og ég mun ekki skipta mér af í og heldur ekki vilja það
bara vera gagntekinn af öllu þessu lífi og öllu þessu og ysi og þysi
vökna um augu án sýnilegrar ástæðu
og mjög mjög dreyminn

og þegar ég hef náð áttum mun ég hrista frakkann minn og hrista aðallestarstöðina af mér eins og hundur hristir votann feldinn
eða eins þegar maður kemur út úr bíósalnum eftir sýningu
ég mun kveikja í sígarettu og halda áfram niður að
Vesterbrogade í átt að Ráðhústorginu
þar sem allir ráfa um inn á milli kvikmyndahúsa og strætisvagna
og aftur mun ég draga mig til hlés
upp við veggspjald
og standa þar og kyssa alla í huganum
því það get ég ekki gert í raunveruleikanum
og ég mun vita að einhversstaðar á þessum götum liggur
allt mitt líf og allir mínir draumar
rétt eins og líf og draumar svo margra annarra

og á morgun koma götusópararnir og fjarlæga þetta allt saman
pakka því saman og það brennur og rotnar
eins og sígaréttupakkinn þinn og eins og þú
og ég mun átta mig á því og ekki gráta það
eins og neonljósin lýsa yfir Ráðhústorginu
og ljósaskiltið flytur sínar fréttir
er allt svo stutt og stopult
eins og síðasta gönguferð manns um bæinn
og ég mun ganga niður að Strikinu eins og skuggi
og alla leiðina munu vinir mínir fylgja mér
og allir sem ég hef elskað
og þau munu öll vera vofur
og enginn annar en ég mun sjá að þetta eru þau en þetta eru þau
og við kveðjum allt og hvert annað
og við erum ekki mærðarleg
en loftið er fyllt af einhverju sem enginn veit hvað heitir eða er
og við förum þangað í hljóðu samtali
og til móts við Kóngsins Nýjatorg eru þau farin aftur
allir skuggarnir eru leystir upp
og sjálfur held ég aðeins lengra áfram
síðasta göngutúr mínum í gegnum bæinn er lokið
og einum stökum skugga færra ferðast um götuna

– Pistillinn var upphaflega fluttur í ÞUKL-inu, á Hlaðvarpi Kjarnans. 28.04.2015 –

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s